Fara beint í efnið

Heimagisting, upplýsingar og umsókn

Skráning og endurnýjun heimagistingar 2024

Leiðbeiningar til að endurnýja skráningu

Heimagistingarleyfi gefur einstaklingi leyfi til að selja gistingu á lögheimili sínu eða í einni annarri fasteign í hans eigu.

Á hverju almanaksári má hver einstaklingur leigja út rými

  • í að hámarki í 90 daga samanlagt

  • fyrir að hámarki 2.000.000 krónur

Skattar og gjöld

Skráning heimagistingar kostar 9.200 krónur og greitt er í skráningarferlinu. 

Tekjur af heimagistingu eru skattlagðar sem fjármagnstekjur. Ekki er heimilt að færa neinn frádrátt á móti tekjunum. Gera þarf grein fyrir tekjunum í skattframtali.   

Sjá nánar um atvinnurekstrartekjur, virðisauka- og gistináttaskattskyldu auk reglna um fjármagnstekjuskatt á vef ríkisskatts.

Skráningarferli

Skrá viðkomandi fasteign eða fasteignir. 

Vinnsla umsókna tekur almennt nokkra daga og svar berst í tölvupósti.

Gildistími skráningar

Skráningin gildir út almanaksárið. 

Endurnýja þarf skráningu á hverju ári ef ætlunin er að halda starfsemi áfram, og þá áður en starfsemi hefst að nýju. 

Reglur og viðurlög

Skráning eignar

Skrá þarf allar fasteignir sem leigðar eru út í heimagistingu. Sé óskráð fasteign leigð út geta viðurlögin verið stjórnvaldssekt sem getur numið allt að einni milljón króna fyrir hvert brot.

Um lögheimili umsækjanda gildir

  • Umsækjandi þarf ekki að vera þinglýstur eigandi.

Um aðra fasteign í eigu umsækjanda gildir

  • Aðrir aðilar mega ekki hafa skráð lögheimili á fasteigninni.

Uppfylli fleiri en einn aðili skilyrði til skráningar heimagistingar vegna sömu fasteignar, hvort heldur sem skráning á sér stað á grundvelli eignarheimildar eða lögheimilisskráningar, skal liggja fyrir samþykki þeirra allra til skráningarinnar.

Aðeins einstaklingar geta skráð heimagistingu. Fyrirtæki og lögaðilar verða að sækja um rekstrarleyfi til sölu gistingar.

Leigutími og leigutekjur 

  • samanlagður fjöldi útleigðra gistinátta má vera að hámarki 90 dagar á almanaksári, óháð því hvort ein eða tvær fasteignir séu skráðar

  • leigutekjur mega að hámarki vera 2.000.000 krónur á hverju almanaksári, óháð því hvort ein eða tvær fasteignir séu skráðar

Fjöldi gistinátta miðast við fastanúmer og skráð heiti viðkomandi eignar, ekki kennitölu þess sem skráir heimagistingu. Ekki er hægt að skrá nýjan aðila fyrir sömu eign þegar heimild ársins er fullnýtt. 

Brot á þessum reglum getur varðað afskráningu heimagistingar á nafni viðkomandi, synjun nýrrar skráningar árið eftir og viðurlögum í formi sektar. Einnig er mögulegt að Skattinum og sveitarfélagi verði tilkynnt um starfsemi sem flokka megi sem atvinnurekstur í viðkomandi húsnæði.

Fjöldi leigurýma 

Leigurýmin mega að hámarki vera

  • í tveimur fasteignum sem umsækjandi á eða hefur skráð lögheimili á 

  • að hámarki fimm herbergi eða rými fyrir 10 einstaklinga í hvorri eign fyrir sig

Ef fleiri rými eru leigð telst um gististað í flokki II að ræða.

Tegund leigurýmis

Leigurýmið má vera íbúðarherbergi, íbúðarhúsnæði eða frístundahús sem samþykkt er af byggingaryfirvöldum. 

Markaðssetning

Við skráningu fær eignin úthlutað skráningarnúmer sem nota þarf við alla markaðssetningu og á bókunarvefjum á netinu. 

Brot á reglum geta varðað stjórnvaldssektum sem geta numið allt að einni milljón króna fyrir hvert brot.

Brunavarnir

Tryggja þarf að húsnæðið uppfylli viðeigandi kröfur laga og reglugerða um brunavarnir, þar á meðal að:

  • Reykskynjarar með hljóðgjafa séu í hverri íbúð eða hverju herbergi þar sem boðið er upp á heimagistingu.

  • Eldvarnarteppi og slökkvitæki séu í húsnæðinu.

  • Yfirlit um flóttaleiðir úr eigninni séu á áberandi stað.

  • Yfirlit um staðsetningu brunavarna séu á áberandi stað.

Heimagisting fellur í notkunarflokk 3 og lesa má nánar um viðeigandi brunavarnir í byggingarreglugerð nr. 112/2002.

Baðaðstaða

Ekki skulu fleiri en tíu manns vera um hverja fullbúna baðaðstöðu. Baðaðstaðan skal vera vel loftræst og sé hún notuð jafnt af gestum og heimilisfólki skulu þar aðeins vera hreinlætistæki með tilheyrandi nauðsynjum ásamt ruslafötu með loki. Skulu gestir hafa þar forgang.

Í hverju gistiherbergi skal vera aðstaða til að hengja upp föt, ruslakarfa, nægilegur fjöldi hand­klæða og vatnsglas.

Leiga á sumarhúsum

Sé heimagisting skráð í sumarhúsi skal sýna fram á aðgengi að neysluvatni með vottun heilbrigðiseftirlits.

Kærufrestur

Heimilt er að kæra ákvarðanir sýslumanns til menningar- og viðskiptaráðuneytisins innan 3 mánaða frá móttöku.

Lög og reglugerðir

Lög um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald nr. 85/2007
Reglugerð um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald 1277/2016
Nánar um hámarkstekjur af leigu eigna í heimagistingu í 4.grein laga um virðisaukaskatt
Nánar um leigu í fjöleignahúsum í lögum um fjöleignahús
Nánar um brunavarnir í byggingarreglugerð nr. 112/2002
Nánar um sköttun á leigutekjur á vef Skattsins

Skráning og endurnýjun heimagistingar 2024

Sýslumenn

Höfuð­borg­ar­svæðið

Mán. til fim. 8:30 - 15
Fös. 8:30 - 14

Vest­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Vest­firðir

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 13:30

Norð­ur­land vestra

Mán. til fös. 9 - 15

Norð­ur­land eystra

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9 - 14

Aust­ur­land

Mán. til fim. 9 - 15
Fös. 9-14

Suður­land

Mán. til fös. 9 - 15

Vest­manna­eyjar

Mán. til fim. 9:15 - 15
Fös. 9:15 - 14

Suðurnes

Mán. til fös. 8:30 - 15